Allir leikmenn norska landsliðsins klæddust bolum fyrir leikinn þar sem á stóð: Mannréttindi - inn á og utan vallar eða „Human rights - on and off the pitch“ á ensku.
Það gerðu þeir einnig í leiknum á miðvikudag en á bolum dagsins stóð einnig að Noregur og Þýskaland hefðu gert sitt og hvaða þjóðir yrðu næstar.
Einnig voru þeir með eina hönd á lofti en það skilaði þeim ekki sigri í dag. Tyrkirnir skelltu Norðmönnum 3-0 er leikið var í Malaga vegna harðra sóttvarnarreglna í Noregi.
Norway taking to the pitch vs Turkey with a new t-shirt.
This time the slogan reads:
"HUMAN RIGHTS - on and off the pitch
Norway✅
Germany✅
NEXT?"With one arm raised. pic.twitter.com/NiQPjtbeYS
— Jonas Giæver (@CheGiaevara) March 27, 2021
Mótmælin í Noregi, sem byrjuðu hjá úrvalsdeildarfélaginu Tromsö, hafa fengið talsverðan meðvind að undanförnu en Tromsö skoraði á norska sambandið að sniðganga HM í Katar vegna fjölda mannréttindabrota í landinu.
The Guardian hefur heimildir fyrir því að 6500 farandverkamenn hafi dáið í framkvæmdum tengdum heimsmeistaramótinu síðan árið 2010 þegar Katar tryggði sér réttinn að halda heimsmeistaramótið.
Stjórnvöld í Katar svöruðu með því að segja að aðeins örlítill hluti af þeim 1,4 milljónum farandverkamönnum, sem störfuðu við framkvæmdirnar, hafi dáið í vinnutengdum slysum frá 2010 til 2019.
Stjórnvöld segjast líka hafa gert sitt í að bæta vinnuaðstæður og öryggi verkamannanna á síðustu tveimur áratugum og hafi refsað þeim eigendum fyrirtækja sem hafa brotið reglurnar.