Iceland

Ritdómur um Vegan eldhús grænkerans: Hafsjór af upplýsingum og fróðleik

Í bókinni Vegan eldhús grænkerans er farið um víðan völl um næringu grænkerafæðis. Rose Glover, annar höfundur bókarinnar, hefur verið grænmetisæta allt sitt líf og grænkeri í meira en 20 ár.

„Næring úr jurtaríkinu og heilsa fólks hefur orðið starfssvið mitt, í því hef ég sérhæft mig og það er ástríða mín,“ segir Rose í inngangi bókarinnar.

„Ég held að margt fólk langi til að borða grænkeramat, en það veit kannski ekki hvernig best er að fara að því. Ég vona að þessi bók geti leiðbeint ykkur og stutt til að voga ykkur út á ókannað svæði svo að þið getið kynnt ykkur allt um mat úr jurtaríkinu, fundið kjark til að velja mat ykkar með upplýstum hætti, notið allra bragðtegunda og dásemda grænkeramatar og orðið ljómandi, hamingjusöm og heilbrigð dæmi um áhrif grænkeramatar á lífið.“

Bókin er mjög skemmtilega uppsett og er full af fróðleik. Rose fer ítarlega út í meltingu á grænkerafæði og gefur nokkur góð ráð. Sumir upplifa uppþembu, meltingartruflanir, krampa og hægðatregðu þegar þeir skipta yfir í grænkeramat og því gott að hafa þessa hluti á hreinu.

Síðan er farið yfir aðra hluti eins og hormón. Leyndardómar prótína eru afhjúpaðir ásamt sannleikanum um soja. Farið er vel yfir alla næringarlegu hluta grænkerafæðis og hvaðan grænkerar geta fengið öll nauðsynleg vítamín og steinefni.

Í öðrum hluta bókarinnar kynnir Rose lesandanum fyrir meira en 100 grænkeramatartegudum – þar á meðal rótargrænmeti, baunir og linsur, hnetur og fræ, kryddjurtir og kryddduft – skýrir næringarinnihaldið og hvernig skuli elda þær og bera fram.

Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar eru síðan nokkrar meinhollar og góðar uppskriftir.

Ég myndi ekki kaupa mér bókina fyrir uppskriftirnar heldur ítarlegu upplýsingarnar um hollan grænkeramat. Þegar fólk skiptir um lífsstíl og hættir að neyta dýraafurða þá stendur það oft fyrir framan tóman ísskáp og með enga hugmynd um hvernig á að setja saman holla og góða máltíð. Vegan eldhús grænkerans hjálpar manni að skipuleggja plöntumiðað mataræði og hvernig á að nálgast nauðsynleg prótein, vítamín og steinefni. Ef þú ert að velta því fyrir þér hvaða fæðutegundir geta komið í stað kjöts og mjólkur og hvernig skipuleggja má skynsamlegar máltíðir þá er þetta bókin fyrir þig.

Ég er sjálf vegan og hef verið það undanfarin tvö ár. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref dembdi ég mér í rannsóknarvinnu á netinu, las bækur og horfði á heimildarmyndir. Það er eitthvað sem ég myndi mæla með fyrir alla sem eru að íhuga að tileinka sér grænkeralífsstíl. Fólk hefur mismunandi ástæður fyrir því að verða vegan. Oftast eru það þrjár meginástæður; fyrir dýrin, fyrir heilsuna eða fyrir umhverfið. Stundum er það samspil af öllum en einhverstaðar byrjum við.

Ef þú ert að spá í heilsunni þá er þetta góð bók til að byrja á. En fyrir suma gæti hún verið örlítið ógnandi en bókin styðst við svokallað „heilnæmt plöntufæði“ eða eins og það er betur þekkt „whole foods plant based.“ Þá er ekki borðað neinar unnar matvörur heldur aðeins grænmeti, ávexti, baunir, hnetur, fræ og heilkorn. Að sjálfsögðu er alltaf gott að borða þessi matvæli en fyrir mitt leyti þá elskaði ég sojakjöt þegar ég varð fyrst vegan og geri enn. Ég borða líka búðarkeypta vegan osta, smjör, jógúrt og margt annað sem gerir lífið svo mikið auðveldara.

Ég hugsa bókina ekki eitthvað til að lifa eftir heldur sem hafsjó af upplýsingum og fróðleik um næringu og matvæli sem ég vill borða meira af. Mér finnst frábært að læra hvernig ég get borið fram sjávargrænmeti og um mismunandi tegundir sojaafurða eins og tempeh.

Bókin er ekki aðeins fyrir grænkera eða tilvonandi grænkera. Hún er fyrir alla sem vilja borða meira af plöntum og vita hvaða eiginleika þessar plöntur hafa fyrir heilsuna.