Iceland

Handtóku mann á leiðinni úr innbroti og fundu mikið magn af þýfi

Lögregla á Suðurnesjum rannsakar málið.
Lögregla á Suðurnesjum rannsakar málið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í nótt mann sem var á göngu með bakpoka og þótti grunsamlegur. Maðurinn viðurkenndi að vera á leið úr innbroti og vísaði lögreglu að lokum á mikið magn af þýfi sem talið er koma úr innbrotahrinu sem lögregla hefur haft til rannsóknar að undanförnu.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu lögreglunnar þar sem segir að lögreglumenn á vakt hafi kannast við manninn er hann var á göngu með bakpokann í nótt. Strax kviknaði grunur um að um væri að ræða manninn sem lögregla hefur leitað að í tengslum við innbrotahrinu.

Fengu lögreglumenn að skoða í bakpokann og segir í Facebook-færslunni að hann hafi „augljóslega ekki“ verið í eigu mannsins, sem var handtekinn. Viðurkenndi hann þá að hann væri á leiðinni úr innbroti. Vísaði hann lögreglu á heimili sitt þar sem fannst mikið magn af veiðidóti, verkfærum og öðrum munum sem taldir eru þýfi.

Annar maður var í íbúðinni og var hann handtekinn, grunaður um að tengjast innbrotunum. Verða mennirnir yfirheyrðir síðar í dag. Unnið er að því að skrá niður þá muni sem fundust.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Mest lesið


Fleiri fréttir

Sjá meira