Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Auðun lokaði hringnum með heimsókn á RÚV

Auð­un Georg Ólafs­son fréttastjóri K100 og einn eigenda Heilsugengisins opnaði sig á einlægan hátt í forsíðuviðtali Heimildarinnar um einn dag hans í starfi fréttastjóra RÚV þann 1. apríl árið 2005. 

Það hljómar mögulega sem aprílgabb að menn gegni starfi aðeins einn dag, en svo var alls ekki, því atburðarás dagsins átti eftir að hafa víðtæk áhrif á heilsu Auðuns næstu árin, öll þessi reiði og heift eins og hann segir sjálfur. Fréttastjóramálið var aðalfréttin þennan dag, margar vikur á eftir og hefur reglulega síðan verið rifjað upp í fjölmiðlum. 

Auðun hefur aldrei tjáð sig opinberlega um málið eftir að hann sendi yfirlýsingu frá sér þennan örlagaríka dag um að hann sæi sér ekki fært að þiggja starf fréttastjóra. Þar til núna, 18 árum seinna, í viðtali Heimildarinnar 20. október. Fyrirsögnin er sláandi: Veiktist í kjölfar hótana, smánunar og útskúfunar. Viðtalið má lesa í heild sinni hér. 

Viðtalið hefur vakið mikla athygli og hafa margir hrósað Auðun fyrir að stíga fram og segja frá. Á mánudaginn var fjallað um málið og rætt við Auðun á heimili hans í Þetta helst á Rás 1. 

Heimsótti RÚV og ræddi við útvarpsstjóra 

Í dag þáði Auðun síðan boð Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra RÚV og mætti í Útvaroshúsið í Efstaleiti. 

„Í morgun heimsótti ég Útvarpshúsið. Frá því í byrjun apríl árið 2005 hefur þetta hús vakið hjá mér óþægilegar tilfinningar. Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, hafði samband í gær og bauð mér að líta við. Neita því ekki að það var örlítill herpingur í maganum og þurrkur í munni þegar ég gekk þarna upp tröppurnar en Stefán tók vel á móti mér í anddyrinu. Rétti mér lyklaspjald til að komast inn í húsið og kynnti mig síðan fyrir starfsfólki,“ segir Auðun. 

Segir hann Stefán síðan hafa boðist til að rölta með honum um húsið og kynna honum starfsemina. 

„Í leiðinni hitti ég marga gamla vini og kollega úr frétta- og dagskrárgerð sem sýndu mér mikla hlýju. Ég fékk að hitta Heiðar Örn, fréttastjóra, sem ræddi við mig um það sem hann er að fást við á hverjum degi. Heilsaði upp á Boga og það var góð stund sem ég mun varðveita. Hitti líka tæknimenn, skoðaði stúdíóin, útvarpsmækana og fékk að nördast í útvarpsleikhúsinu.

Við Stefán ræddum það sem gerðist áður í þessu húsi og olli miklum sársauka, ekki bara hjá mér. Þótt þetta hafi verið löngu fyrir hans tíð þá sýndi hann mér mikinn velvilja og skilning sem ég er óendanlega þakklátur fyrir. Eftir í mér situr bara kærleikur í garð þessa húss og fólksins sem þar starfar og starfaði áður. Mig langar að stoppa hér við upprifjun þessa máls og þakka öllum innilega fyrir sem hafa verið til staðar, leiðbeint mér og stutt. Hér lokast hringurinn.“