Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Mjaldrasysturnar gætu brátt fengið félagsskap í Vestmannaeyjum

Mjaldrasysturnar Litla Grá og Litla Hvít gætu fengið félagsskap á komandi árum. Til hefur staðið að flytja mjaldur að nafni Bella til Vestmannaeyja frá Suður Kóreu.

Kóreyski miðillinn Yonhap greinir frá þessu.

Bella hefur dvalið í sædýragarðinum Lotte World í Seoul, höfuðborg Suður Kóreu síðan árið 2014. Þangað var hún flutt frá Rússlandi ásamt tveimur karlkyns mjöldrum sem báðir drápust langt fyrir aldur fram, árin 2016 og 2019. Þeir voru aðeins 5 og 12 ára gamlir en meðal ævilengd mjaldra er í kringum 40 ár.

Dýraverndunarsinnar hafa gagnrýnt veru og aðbúnað mjaldrana í Lotte World harðlega og hefur safnið brugðist við með því að heita því að senda Bellu í athvarf til Íslands.

Tafir vegna veikinda og faraldurs

Þann 12. október var Koh Jeong-rack, forstjóri Lotte World, yfirheyrður af þingnefnd Suður kóreyska þingsins. Þar sagði hann að ætlunin væri að flytja Bellu í erlent athvarf fyrir árið 2026. Útsendarar frá sædýragarðinum hefðu heimsótt mjaldraathvarfið á Íslandi fyrir nokkrum árum til að tryggja að tekið yrði við Bellu.

Litla Hvít og Litla Grá komu til landsins sumarið 2019. Mynd/skjáskot

Hins vegar hafi áætlanir um flutning Bellu tafist. Bæði vegna heimsfaraldursins þegar ómögulegt var að flytja hvali heimshorna á milli og aðlögunar og heilsu þeirra hvala sem komu þangað fyrst, sem sagt Litlu Hvítar og Litlu Gráar.

„Við fengum skilaboð frá stjórnanda athvarfsins á Íslandi um að bíða vegna tafa við að setja upp aðstöðu fyrir veikan hval og vegna þess að þau þurftu að sjá um hann,“ sagði Kim Tae-hyung, upplýsingafulltrúi Lotte World. „Það er erfitt að segja hvenær flutningurinn mun eiga sér stað en við erum núna í viðræðum um þetta.“