Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Í hvaða heimi býrð þú?“

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, varar við því að hún gæti neyðst til að hætta hjálparstarfi sínu á Gasasvæðinu við lok dags í dag vegna eldsneytisskorts þar en að sögn talsmanna hryðjuverkasamtakanna Hamas hafa 700 manns á svæðinu nú fallið á einum degi í loftárásum Ísraelshers.

Vegna umsáturs Ísraelsmanna á Gasa hafa innan við 70 flutningabifreiðar með hjálparbúnað og vistir fengið að fara inn á svæðið sem að sögn Antonio Guterres, aðalritara SÞ, er „dropi hjálpar í haf þurfta“.

Ísraelski forsætisráðherrann Benjamin Netanjahú hefur sett sér það yfirlýsta markmið að útrýma Hamas-samtökunum en 6.500 manns hafa nú fallið á Gasa síðan hefndaraðgerðir Ísraelsmanna hófust þar í kjölfar innrásar Hamas í byrjun mánaðarins.

Í stríði við börn

Ekki hafa þó Hamas-liðar einir fallið fyrir sprengjum Ísraela. „Þeir eru ekki í stríði við Hamas, þeir eru í stríði við börn. Þetta eru fjöldamorð,“ segir Abu Ali Zaarab við AFP-fréttastofuna, heimilislaus maður eftir að hús hans og fjölskyldunnar í borginni Rafah var jafnað við jörðu í loftárás.

Uppskar Guterres aðalritari harkaleg viðbrögð Ísraela við lýsingum sínum á skelfingu Gasasvæðisins. „Herra aðalritari, í hvaða heimi býrð þú?“ spurði Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísraels, og rifjaði upp innrás Hamas-liða 7. október, blóðugasta dag í sögu Ísraels.

Ísraelsher hefur neitað að slaka á klónni og hleypa eldsneyti inn á Gasasvæðið, ber því við að hætta sé á að Hamas-liðar noti það til vopna- og sprengjugerðar. Fái UNRWA ekki eldsneyti á bifreiðar sínar í dag segja talsmenn stofnunarinnar að þeir neyðist til að leggja af aðstoð við þá 600.000 íbúa Gasasvæðisins sem hrakist hafa af heimilum sínum vegna linnulítilla loftárása Ísraelsmanna.

Sjúkrahús svæðisins eru þegar yfirfull og eru sjúklingar meðhöndlaðir á gólfum þeirra. Varar Rauði krossinn við því að þegar ljósavélar sjúkrahúsanna tæmi eldsneytistanka sína breytist þau í líkhús.

mbl.is