Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Frestun vandamála fremur en lausn

Bráðnandi jöklar, hitabylgjur og geimrusl eru meðal umfjöllunarefna skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag, mánuði fyrir alþjóðlega loftslagsráðstefnu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Varar skýrslan við því sem höfundar hennar kalla óafturkræfar afleiðingar fyrir umhverfið og hvetja þeir til tafarlausra aðgerða áður en svo verði komið að félagsvistkerfi (e. socioecological system) jarðarinnar beri álagið ekki lengur og hætti að starfa eðlilega.

Sem fyrr segir fjallar skýrslan um fleiri áhættuþætti en þá sem beinlínis finnast á jörðu niðri og er geimrusl tekið þar til umfjöllunar, gríðarlegt magn ýmissa hluta á sporbaug um jörðu sem nú eru taldir um 36.000 talsins, ónýtur tækjabúnaður, hlutar af gervitunglum, burðarflaugum og fleiru.

Eyðileggjum kerfin sem líf okkar byggir á

Er geimruslið einn sex meginþátta sem skýrslan tekur til en hinir eru dýrategundir sem deyja út, grunnvatnsskortur, bráðnun jökla, hitabylgjur og ótrygg framtíð.

„Því meira sem við gerum af því að ganga á vatnsbirgðir okkar, skaða náttúruna og líffræðilega fjölbreytileikann og menga hvort tveggja jörðina og himingeiminn, því hraðar nálgumst við að ekki verði aftur snúið og við eyðileggjum þau kerfi sem líf okkar byggir á,“ segir Zita Sebesvari, aðalhöfundur skýrslunnar.

Bendir hún á að Sádi-Arabía sé þegar komin að áhættumörkum hvað grunnvatnsstöðu snerti og Indland stefni hraðbyri þangað. Þá bráðni jöklar jarðar nú tvöfalt hraðar en þeir gerðu síðustu tvo áratugi og þar séu rúmlega 90.000 jöklar Himalaya-, Karakoram- og Hindu Kush-fjallanna engin undantekning. Samkvæmt skýrslunni treysta 870 milljónir íbúa á þeim slóðum á að jöklarnir hverfi ekki.

Skýrsluhöfundar gagnrýna stjórnvöld ríkja heimsins fyrir að draga lappirnar, flestar lausnir þeirra byggi á að fresta vandamálunum fremur en að ráðast að rót þeirra.

„Við þurfum að átta okkur á muninum á því að laga okkur að áhættuþáttunum og forðast þá og muninum á aðgerðum sem veita okkur gálgafrest og þeim sem færa okkur nær umbreytingu,“ segir í skýrslunni.

mbl.is