Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Útlitsmeðferðir verði aðeins á færi lækna

Einungis læknum með sérfræðileyfi frá landlækni í húðlækningum eða lýtalækningum verður heimilt að framkvæma aðgerðir sem kveðið er á um í drögum að nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmarkanir á meðferðum til útlitsbreytinga án læknisfræðilegs tilgangs sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Er markmið reglugerðarinnar að tryggja hagsmuni sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu með því að takmarka veitingu tilgreindra meðferða til útlitsbreytinga við tilgreindar heilbrigðisstéttir eða sérfræðinga.

Gildir reglugerðin um meðferðir sem fela í sér hvers kyns inndælingu á lyfjum eða lækningatækjum og innsetningu hluta undir húð. Verður sú krafa því gerð er reglugerðin tekur gildi að framangreindrar menntunar verði krafist svo sem til að sprauta fylliefnum í varir eða aðra líkamshluta. Reglugerðin nær ekki til húðflúrunar og húðgötunar.

Upplýsts samþykkis krafist

Þá er skilyrði að meðferð sé veitt á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu sem hlotið hefur staðfestingu landlæknis til reksturs heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt reglugerðinni ber að upplýsa hvern þann er hyggst ganga undir meðferð án ætlaðs læknisfræðilegs tilgangs bæði munnlega og skriflega um meðferðina, eðli hennar og líklega niðurstöðu með skýrum hætti auk þess sem tíunda beri alla áhættu og mögulegar aukaverkanir.

Upplýst samþykki, þess sem gangast hyggst undir meðferðina, þarf til að veita hana og staðfestir sá hinn sami með samþykki sínu að hann hafi verið upplýstur um mögulega áhættu. Getur sjúklingur afturkallað leyfi sitt hvenær sem er og skal þá samstundis stöðva meðferð.

Um viðurlög við brotum gegn reglugerðinni fer eftir lögum um heilbrigðisstarfsmenn, lögum um landlækni og lýðheilsu, lögum um lækningatæki og lyfjalögum.

Tilkynning Stjórnarráðsins

mbl.is