Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Þolinmæði á þrotum og fundir skilað litlu sem engu

Vikulegir fundir viðræðunefnda Fagfélaganna (MATVÍS, RSÍ og VM) með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins (SA) um verkáætlun vegna komandi kjarasamninga hafa litlu sem engu skilað. Formaður RSÍ segir að langlundargeð Fagfélaganna sé brostið.

Þetta segir í tilkynningu frá Rafniðnaðarsambandi Íslands (RSÍ). Þar kemur fram að Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, hafi sagt að langlundargeð Fagfélaganna sé brostið og bent á að þeir fulltrúar sem SA hafi sent fyrir sína hönd hefðu ekki umboð til að semja um þau atriði sem á borðinu eru.

Ffagfélögin hafa af þessum sökum farið þess á leit að ríkissáttasemjari annist frekari fundahöld þar sem reynt verði til þrautar að ljúka vinnu við verkáætlun úr síðustu kjarasamningum sem geti þá einnig stuðlað að því að endurnýjun næstu kjarasamninga hefjist sem fyrst. Þá sé tími árangurslausra fundahalda um verkáætlun liðinn.

Verðbólgan étið upp launahækkun síðasta árs

Á fundinum fóru fram líflegar umræður um stöðu viðræðna og ljóst að fundahöld síðustu vikna hafa valdið vonbrigðum, að því er RSÍ segir.

Benóný Harðarson, forstöðumaður kjarasviðs Fagfélaganna, kynnti samninganefndunum niðurstöður launakönnunar sem lögð var fyrir félagsfólk í vor og sumar. Hann sýndi meðal annars fram á að verðbólgan hafði í byrjun september étið upp þá 6,75% launahækkun sem samið var um í síðustu kjarasamningum.

Í tilkynningunni segir að sérstaka athygli hafi vakið hve samhljóma félagsfólk í þessum þremur félögum sé um áherslur fyrir komandi kjaraviðræður. Launahækkanir, styttri vinnutími og fjölgun orlofsdaga væru þau atriði sem efst voru á blaði hjá öllum aðildarfélögum. Þessar niðurstöður gefi samninganefndunum Fagfélaganna skýrt og sterkt umboð inn í þær kjaraviðræður sem nú fara í hönd.

mbl.is