Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Einstök kafaraúr kennd við Silfru

„Þessi úr eru komin í forsölu og eru strax farin að hreyfast á netinu. Ég geri ráð fyrir að þau verði öll uppseld þegar þau koma,“ segir Magnús D. Michelsen, kaupmaður hjá Michelsen úrsmiðum.

Úraframleiðandinn Seiko kynnti á dögunum að tvö úr væru væntanleg í Prospex-línu fyrirtækisins. Úrin eru nefnd eftir gjánni Silfru á Þingvöllum og eru sérhönnuð fyrir útivist og köfun. Þau eru aðeins framleidd fyrir Evrópumarkað og koma á markað í nóvember.

„Annað úrið er kafaraúr og er útlit þess innblásið af litunum ofan í Silfru, þessum bláu og grænu tónum. Litasamsetningin á hinu úrinu kemur frá umhverfinu í kringum Silfru,“ segir Magnús. Aðeins eru framleidd 2.000 eintök af kafaraúrinu og kostar það 190 þúsund krónur. Af útivistarúrinu eru aðeins framleidd 1.400 eintök og þurfa áhugasamir að reiða fram 135 þúsund krónur til að tryggja sér eintak.

Michelsen úrsmiðir tóku við umboðinu fyrir japanska framleiðandann Seiko hér á landi fyrr á árinu en þessi nýju úr eru alls ótengd þeim vendingum. „Silfra er einn þekktasti og flottasti köfunarstaður í heimi og ég held að fyrirtækið sé einfaldlega meðvitað um það. En þetta er hættulegur staður og þú þarft að vita hvað þú ert að gera þarna. Það passar vel við Prospex-línuna hjá Seiko. Þau úr eru praktísk og áreiðanleg.“

Seiko er að sögn Magnúsar stærsta úrafyrirtæki í heimi. „Fyrirtækið framleiðir og selur flest úr af öllum framleiðendum. Það gerir hlutina á sinn hátt, það er ekkert merki eins og Seiko.“