Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Hörmungar hjá keisaramörgæsum

Hafís við Suðurskautið fer minnkandi og það kemur sér mjög illa fyrir keisaramörgæsir en þær treysta á ísinn til að geta komið ungum sínum á legg. Ísmagnið hefur aldrei verið minna en nú er og það varð til þess að mörgæsirnar komu aðeins örfáum ungum á legg. Vísindamenn segja að með þessu áframhaldi muni tegundin deyja út fyrir aldamót.

Á síðasta ári var magn hafíss við Suðurskautið það minnsta sem mælst hefur. Keisaramörgæsirnar treysta á hafísinn þegar kemur að því að verpa og koma ungum sínum á legg.

CNN segir að ísmagnið sé venjulega stöðugt frá apríl fram í endaðan desember. En þegar ísinn brotni snemma, líklega vegna hærri sjávarhita, drukkni ungarnir líklega eða frjósi í hel þar sem þeir hafi ekki enn fengið vatnsheldar fjaðrir.

Keisaramörgæsir lifa eingöngu á Suðurskautinu þar sem algjört myrkur ríkir á veturna og frostið fer niður í allt að 50 gráður.

Í Bellinghausen hafi var allur hafís horfinn í nóvember á síðasta ári en það er töluvert áður en ungarnir hafa fengið vatnsheldar fjaðrir.

Líklegt er talið að á fjórum af fimm varpsvæðum keisaramörgæsa hafi engir ungar komist á legg að því er kemur fram í rannsókn sem var birt nýlega í vísindaritinu Communications Earth & Environment.