Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Hversu gamlir eru egypsku pýramídarnir?

Egypsku pýramídarnir eru vel þekkt tákn valda hinna gömlu egypsku faraóa og þeirrar miklu tæknikunnáttu sem Egyptar bjuggu yfir. En hvenær voru fyrstu pýramídarnir reistir og af hverju voru þeir reistir?

Nýlega var fjallað um þetta á vef Live Science. Fram kemur að fyrsti pýramídinn hafi verið reistur af faraónum Djoser sem réði ríkjum fyrir tæpum 4.700 árum. Fyrir 3.500 árum var síðasti pýramídinn, sem var reistur fyrir faraó, reistur fyrir Ahmose I.

Eftir þetta voru faraóarnir jarðsettir í neðanjarðarhvelfingum í Konungsdalnum.

Pýramídarnir voru sem sagt reistir á árunum 2.700 til 1.500 fyrir Krist. Elstu pýramídarnir eru því um það bil jafn gamlir og Stonehenge á Bretlandseyjum. Þeir eru þó miklu eldri en önnur forn mannvirki og má þar nefna Kínamúrinn, sem var reistur um 220 fyrir Krist, og Colosseum, sem var reist um 80 eftir Krist. Gobekli Tepe hofið í Tyrklandi er þó miklu eldra en það var reist fyrir um 11.000 til 12.000 árum.

Vísindamenn vita ekki enn með vissu af hverju faraóar vildu nota pýramída sem grafstæði. Ein hugsanleg skýring er að það hafi veitt meiri vernd gegn grafræningjum. Önnur er að þeir hafi talið þetta bestu og hagkvæmustu leiðina til að búa til leið fyrir faraóinn til himna. Ekki er heldur útilokað að trúarlegar ástæður hafi legið að baki. Sólin skipti sífellt meira máli í trú Egypta til forna og því gætu þeir hafa viljað reisa pýramída sem teygðu sig hærra til himins.