Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Reykingar margfalda hættuna á andlegum sjúkdómum

Það hefur lengi verið vitað að reykingar auka líkurnar á blóðtappa og ýmsum tegundum krabbameins. Nú er hægt að bæta andlegum sjúkdómum á listann yfir skaðleg áhrif reykinga.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Árósaháskóla. Er þetta byggt á niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem náði til 350.000 manns.

Segja vísindamennirnir, sem stóðu að rannsókninni, að niðurstöður hennar sýni að reykingar margfaldi hættuna á að fólk þrói með sér þunglyndi, geðklofa og geðhvarfasýki.

„Tölurnar tala mjög skýru máli. Reykingar valda andlegum sjúkdómum. Ekki eina ástæðan en reykingar auka hættuna á innlögn með geðsjúkdóm um 250%,“ sagði Doug Speed, hjá Árósaháskóla, í samtali við TV2.

Fram að þessu hafa vísindamenn ekki verið sammála um samhengið: Veikist fólk af þunglyndi eða öðrum andlegum sjúkdómum vegna þess að það reykir? Eða reykir fólk af því að það hefur þörf fyrir að halda aftur af andlegum veikindum?

Niðurstaða nýju rannsóknarinnar er hins vegar ótvíræð, reykingar hefjast yfirleitt áður en fólk fer að þjást af andlegum sjúkdómum.  Í raun löngu áður.

Speed sagði að þátttakendurnir í rannsókninni hafi að meðaltali byrjað að reykja þegar þeir voru 17 ára en hafi að sama skapi fyrst verið lagðir inn á sjúkrahús, vegna andlegra veikinda, þegar þeir voru þrítugir.

Vísindamennirnir vita ekki af hverju reykingar auka líkurnar á andlegum sjúkdómum og eiga eftir að finna líffræðilega ástæðu þess. Ein af kenningum þeirra er að nikótín komi í veg fyrir upptöku serótóníns í heilanum.