Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Var í uppeldisbúðum fyrir ungkommúnista

Villi er viðmælandi í nýjasta þætti af Einkalífinu en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:

Frábær lífsreynsla

Ítalía hefur spilað stórt hlutverk í lífi Villa í um tuttugu ár og segir hann þá tengingu sannarlega hafa mótað sig og sinn stíl. Ævintýrin byrjuðu snemma hjá honum en hann fór í eftirminnilegt ferðalag fyrir um fjörutíu árum síðan.

„Ég hef verið tólf ára gamall þegar ég var í sex vikur í Austur-Berlín í uppeldisbúðum fyrir ungkommúnista. Það var auðvitað, eins og svo margt annað, frábær lífsreynsla og það er mjög gaman að hafa komið þangað á þeim tíma, áður en múrinn féll, og fá að upplifa það að versla í dollarabúðum og í raun og veru sjá þær aðstæður sem fólk bjó við á þessum tíma.“

Reynir að láta allt verka sér til góðs

Hann segir líf sitt að sjálfsögðu hafa verið alls konar, bæði upp og niður.

„Það hafa mest megnis gerst góðir hlutir en auðvitað líka hlutir sem maður myndi vilja hafa öðruvísi. En allt einhvern veginn reynir maður að láta þetta verka sér til góðs. Ég held að bæði góðu tímarnir og eins erfiðleikarnir hafi gert mig að þeim manni sem ég er í dag.“

Aðspurður hvort hann gæti gefið fjórtán ára sér einhver góð ráð svarar Villi:

„Ég er ekki viss um að ég sé til þess umkominn að gefa það. Af því þegar ég horfi á nýja kynslóð, þegar ég horfi á Önnu Maríu dóttur mína og Villa son minn og þær ákvarðanir sem þau eru að taka ekki eldri en þau eru, nítján ára og þrettán ára, þá finnst mér þau bara vera á algjörlega réttri leið í lífinu og ég sé enga ástæðu til að vera að skipta mér að því.“

Allt breyttist við það að eignast börn

Það kemur sterkt fram í viðtalinu að Villi lætur álit annarra ekki setja sig út af laginu og hefur í gegnum tíðina verið ónæmur fyrir umtali. Það eina sem hefur breyst hvað það varðar sé tilvist barnanna sinna. 

„Þau auðvitað fylgjast með og lesa hluti. Hvað mig sjálfan varðar þá breytir þetta engu. Ég hef auðvitað lent í því eins og aðrir sem eiga börn að þau hafa séð og lesið eitthvað sem þau hafa raunverulega verið að velta fyrir sér hvort væri rétt. Þar sem það er ekkert sem skiptir mig meira máli í lífinu heldur en Anna María og Villi þá auðvitað getur það haft áhrif.“

Hann segir að lífið hafi breyst á alla vegu við það að verða faðir. 

„Ég er auðvitað sjálfhverfur og pínulítill egóisti eins og flestir og það er einhvern veginn bara þannig að maður fór að horfa allt öðrum augum á lífið. Þessi persóna sem maður var áður sem var alltaf í fyrsta sæti og jafnvel öðru og þriðja líka var bara komin niður í tíunda sætið. 

Af því að velferð þeirra og það hvernig börnunum manns líður einfaldlega bara skiptir mig öllu máli. Og það myndi engu breyta hversu vel gengur hjá mér, hvort heldur sem í vinnunni eða í einkalífi, ef að krakkarnir mínir eru ekki glaðir þá er ég það ekki heldur. Það er bara staðreynd.“