Iceland

Við megum aldrei gleyma

Í dag eru liðin 75 ár síðan fangar í útrýmingabúðunum í Auschwitz voru frelsaðir. Auschwitz er sterkasta táknið um morðæðið sem greip um sig á fyrri hluta tuttugustu aldar – en varð stofnanavætt og skriffinskulegt í Auschwitz. Þar urðu morð að skipulögðum iðnaði. Ríkið nýtti líkin og eigur fórnarlambanna en í verksmiðjum stórfyrirtækja unnu fangar sem gátu ekki vænst neins nema dauða. Þetta er einhvers konar hámark illsku – ekki það að aðrar símyrðandi ríkisstjórnir hafi legið á liði sínu á þessum tíma.

Það er rétt sem sagt er, þessu megum við aldrei gleyma.

Myndin sem hérna fylgir með segir mikla sögu um hugarfar nasista, þaulskipulagt mannhatur. Þetta er plakat sem var gert til að uppfræða þá sem unnu í einangrunarbúðum, KZ-lager eins og það var kallað. Þarna er ekkert tilviljunum háð, hvorki litirnir né formin.

Pólitískir fangar hafa rauðan þríhyrning, atvinnuglæpamenn græna, samkynheigðir bleika, vinnufælnir svarta – svo nokkuð sé nefnt.

Síðan bætist við annar þríhyrningur fyrir gyðingana og verður þá gyðingastjarna, en úr verða mismunandi tegundir af þeim. Til dæmis sérstök merki fyrir þá sem hafa framið Rassenschände – semsagt haft mök við fólk sem það mátti ekki nálgast samkvæmt kynþáttafræðunum sem voru grundvöllur nasismans.

Svo sjáum við fangabúningana sem við þekkjum flest úr kvikmyndum og vekja strax óhugnað – og hvernig merki og númer eru fest á þá.

Loks má nefna að það er mikil skömm, og er bæði merki um gleymsku og viðleitni til að misnota þessa hryllilegu atburði í pólitísku skyni, að Rússar og Pólverjar skuli vera farnir að deila um hörmungar stríðsins, hverjir hafi þjáðst mest, hverjir eigi sök, hvers skuli minnast og hvernig.