Iceland

Allt að 60% kvenna rangt greindar á breytingaskeiðinu

Samkvæmt The Telegraph eru allt að 60% kvenna á aldrinum 40 til 50 ára gefin þunglyndislyf í stað hormóna vegna breytingaskeiðsins. Líkur eru á því að hormónar minnki tíðni Alzheimer seinna á ævi þessara kvenna en læknar segja rannsóknir sem gerðar eru í dag benda til þess að orsakir vitstola og Alzheimers í konum megi rekja til tímabils sem er undanfari breytingaskeiðsins.

Judith Graham er 52 ára viðburðastjórnandi sem hefur lengi verið í toppformi. Hún starfar við að skipuleggja alls konar viðskiptaviðburði fyrir fólk víða um heiminn. Upp úr þurru fór hún hins vegar að finna fyrir depurð, lélegu minni og einbeitingarskorti, ásamt skapsveiflum sem urðu til þess að hún upplifði reiði í garð barna sinna og eiginmanns upp úr þurru. 

„Ég upplifði fæðingarþunglyndi fyrir átján árum síðan þegar ég eignaðist son minn og tengdi við þá líðan aftur á breytingaskeiðinu. Í fyrstu hitti ég lækninn minn sem gaf mér þunglyndislyf. Sjö mánuðum seinna fór ég til heimilislæknis sem er kona og skildi hvað ég var að ganga í gegnum. Hún taldi að líklegast væri ég ekki þunglynd heldur að ganga í gegnum breytingaskeiðið. Hún gaf mér hormón og heilaþokan og þunglyndið hvarf.“

Rannsóknir sýna að tveir þriðju þeirra sem fá Alzheimer eru konur. Lisa Mosconi, bandarískur sálfræðingur sem starfar fyrir WCMBI (Weill Cornell Medicine´s Brain Initiative) í Bandaríkjunum, er um þessar mundir að skoða tengsl á milli estrógenminnkunar og vitstola. Hún telur góðar líkur á að Alzheimer geti átt upptök sín á skeiði sem kemur á undan hinu eiginlega breytingaskeiði.

„Allar konur vita að þegar þær fara á breytingaskeiðið verður hárið þurrt og húðin líka. Það þýðir að við erum að eldast. Færri gera sér grein fyrir að það sama er að koma fyrir heilann í okkur. Estrógen virkar sem eins konar taugavarnahormón. Þegar það minnkar í líkamanum eldast heilafrumurnar líka.“

Læknirinn Tania Adib tekur í sama streng og segir að heilinn í okkur þurfi estrógen til að starfa eðlilega. Dr. Newson segir að allar frumurnar í líkamanum verði fyrir áhrifum hormóna, einnig þær sem eru í heilanum í okkur. Að konur sem taka ekki inn hormón á breytingaskeiðinu geti aukið líkurnar á hjartasjúkdómum og vitglöpum. 

„Konur eru stundum hræddar við að taka inn hormón á breytingaskeiðinu. En þeir sem eru að missa virkni í skjaldkirtli veigra sér ekki við að taka inn hormón við því. Það sem konur óttast helst er að fá krabbamein ef þær taka inn hormón. En hormón eru mun öruggari en margir átta sig á. Við eigum eftir að gera fleiri rannsóknir á næstu misserum sem sýna tengsl á milli breytingaskeiðsins og heilastarfseminnar. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þeim niðurstöðum,“ segir dr. Newson. 

Sérfræðingar eru almennt sammála um að það eru til nokkrar leiðir til að minnka líkur á vitglöpum á breytingaskeiðinu. Þær eru meðal annars að læra nýja hluti, hreyfa sig að jafnaði, minnka eða stoppa inntöku áfengis, minnka streitu og stress í lífinu og umgangast fólk. 

Hér á árum áður, sem dæmi á Viktoríutímabilinu, lifðu konur rétt fram yfir breytingaskeiðið. Nú er öldin önnur og konur lifa mun lengur. Vísindasamfélagið úti um allan heim er að rannsaka þetta tímabil í lífi kvenna betur og því miður kemur í ljós að allt að 60% kvenna eru að fá þunglyndislyf á breytingaskeiðinu í stað hormóna. Það hefur enn þá ekki verið sannað að hormónameðferð á breytingaskeiði komi í veg fyrir Alzheimer, þótt rannsóknarniðurstöður gefi vísbendingar um að góðar líkur eru á því að tíðnin sé minni hjá þeim sem taka inn hormón á þessum tíma í lífinu. 

mbl.is