Valdimar Sverrisson og Davíð Þór Jónsson bregða á leik.

Valdimar Sverrisson og Davíð Þór Jónsson bregða á leik. Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandi Valdimars Sverrissonar

„Jósteinn Einarsson hleypur með mér aftur í ár. Aðalmálið verður að reyna að koma honum í mark,“ segir Valdimar Sverrisson hlæjandi. Þeir ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu en Valdimar er blindur og þarf stuðningshlaupara með sér og það er umræddur Jósteinn. Valdimar viðurkennir þó að Jósteinn, sem er sjúkraþjálfari hans, sé í mun betra formi en hann sjálfur. 

Valdimar missti sjónina árið 2015 þegar heilaæxli var fjarlægt úr höfði hans. Hann er húmoristi af guðs náð og tekur þeim breytingum sem urðu á lífi hans með jákvæðni að leiðarljósi svo eftir er tekið. Kímnigáfa hans kemur bersýnilega í ljós í nýju myndbandi sem hann sendi frá sér í tilefni Reykjavíkurmaraþonsins. Auk Valdimars leikur Davíð Þór Jónsson sóknarprestur í Laugarnesprestakalli í Reykjavík sjálfan sig í því.

Davíð Þór er einnig prestur íbúa á sjálfsbjargarheimilinu Hátúni þar sem Valdimar er búsettur. „Ég nefndi þetta við hann og hann tók vel í þetta,“ segir hann og bætir við: „Ég hef fengið fjölmarga skemmtikrafta til að sprella með mér í myndböndum.“

Uppistand, myndbandagerð og söngur er á meðal þess sem Valdimar hefur tekið sér fyrir hendur eftir að hann missti sjónina. Hann gerir óspart grín að sjálfum sér og öðrum málefnum góðlátlega. Áður en Valdimar missti sjónina tók hann þátt í að gera árshátíðarmyndband hjá Prentmet, fyrirtæki sem hann vann hjá um árabil. „Ég lék forstjórann því enginn annar þorði að taka það að sér,“ segir hann kíminn.

Eftir að hann varð blindur má segja að hann hafi tekið upp grínþráðinn af fullum þunga. Hann hefur getið sér gott orð sem uppistandari og gefið út þónokkur myndbönd. 

„„Minni tími. Meiri peningar“ er slagorðið mitt í ár,“ segir Valdimar sem safnar fyrir Barnaspítala Hringsins. Hann hljóp líka í fyrra og safnaði fyrir Blindrafélagið en langaði að breyta til og safna fyrir börnin í ár.  „Móðuramma mín heitin, Ingunn Ásgeirsdóttir, starfaði með Hringnum á sínum tíma. Núna starfar dóttir mín, Valdís Ingunn, þar sem hjúkrunarfræðingur. Ég hef líka þurft að leita þangað með börnin mín,“ segir Valdimar sem á þrjár dætur.  

Hér er hægt að heita á Valdimar í Reykjavíkurmaraþoninu. 

Þess má geta að Valdimar greindi frá reynslu sinni í merku viðtali við Sunnudagsmorgunblaðið 15. desember í fyrra.

Í janúar á þessu ári var honum boðið í heimsókn  á Bessastaði eftir að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, las umrætt viðtal við hann. 

Valdimar Sverrisson ljósmyndari missti sjónina árið 2015.

Valdimar Sverrisson ljósmyndari missti sjónina árið 2015. mbl.is/Hari

mbl.is

Samfélag í sárum - Greinaflokkur